Garðasel varð heilsuleikskóli 5. október 2012
Leikskólinn vinnur eftir markmiðum heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur. Heildarsýn skólans miðast við heilsueflingu í hvívetna. Kennarar í heilsuleikskóla gera sér grein fyrir mikilvægi uppeldishlutverksins og tileinka sér jákvætt viðhorf gagnvart heilbrigðum lífsstíl.

Heilsubók barnsins er gæðamatskvarði heilsuleikskóla. Í bókina eru skráðar ýmsar upplýsingar um barnið, svo sem hæð og þyngd, heilsufar, fjarvera vegna veikinda, næring og svefn, leikur, félagsleg færni/lífsleikni, gróf- og fínhreyfigeta og þróun myndsköpunar.

Matsaðferðin felst í nákvæmri skráningu á þroska og færni barnsins. Tvisvar á ári eru börnin metin og árangurinn skráður í Heilsubók barnsins. Skráningin veitir kennurum haldbæran grunn í foreldrasamtölum sem gefur hlutlausa sýn á þroskasögu barnsins. Þessi leið gefur hlutlausa heildarsýn yfir stöðu barns í öllum þroskaþáttum. Heilsubók barnsins er í öllum tilfellum trúnaðarmál og eign barnsins.

Markmið heilsuleikskóla er: Að auka gleði og vellíðan barna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik og starfi.
Markmið heilsustefnunnar er: Að venja börn strax í barnæsku við heilbrigða lífshætti mð það í huga að þeir verði hluti af lífsstíl þeirra til framtíðar.
Áhersluþættir heilsuleikskóla geta verið mismunandi eftir leikskólum en góð næring, góð hreyfing og listsköpun skal ávallt vera aðalsmerki þeirra.
Einkunnarorð Garðasels
eru: hreyfing - næring - virðing - skapandi starf.

Garðasel vinnur eftir næringarstefnu heilsuleikskóla þar sem meðal annars er lögð áhersla á takmörkun á salti og sykri í matargerð og bakstri auk þess að bjóða upp á fjölbreytt úrval ávaxta og grænmetis:
Næringarstefna heilsuleikskóla

Skipulögð hreyfing í Heilsuleikskólanum Garðaseli

Leikskólinn leggur áherslu á að barnið fái notið sín í mismunandi hreyfingum þar sem leikurinn er lagður til grundvallar um leið og unnið er í því að auka jafnvægi, samhæfingu hreyfinga sem og að efla kjark og þor.

Garðasel býður upp á skipulagða hreyfingu í salnum undir stjórn íþróttakennara fyrir alla hópa á eldri deildunum Hvammi og Vörðu 2 x í viku. Hóparnir á Þúfu og Lundi (yngri deildir) fara 1 x í viku.

© 2016 - 2021 Karellen