Markmið og stefna heilsuleikskólans Garðasels

Í heilsuleikskólanum Garðaseli er starfað samkvæmt lögum um leikskóla nr. 90/2008 og aðalnámskrá leikskóla sem menntamálaráðuneytið gaf út 2011. Leikskólinn er fyrir öll börn óháð andlegu og líkamlegu atgerfi, menningu eða trú.
Leikskólinn þarf að vinna þannig að öllum markmiðum sé náð. Heildarsýn skólans þarf að miðast við heilsueflingu í hvívetna. Kennarar í heilsuleikskóla verða að gera sér grein fyrir mikilvægi uppeldishlutverksins og tileinka sér jákvætt viðhorf gagnvart heilbrigðum lífsstíl.

Garðasel er með það að markmiði að:
Efla alhliða þroska barnsins í samræmi við eðli, þarfir og þroska hvers og eins í gegnum leikinn, ásamt því að auka gleði og vellíðan barnanna. Þar sem lögð er áhersla á næringu, hreyfingu, skapandi starf, læsi í víðum skilningi og stærðfræði.

Leiðir til þess að ná þessum markmiðum eru:

  • Lögð er áhersla á að börnin fái hollan, fjölbreyttan og næringarríkan mat þar sem allt er unnið frá grunni og hörð fita, sykur og salt eru í lágmarki.
  • Áhersla er á fjölbreyttar skipulagðar hreyfistundir inni sem úti, þar sem andleg og líkamleg vellíðan er í fyrirrúmi, gleði, snerpa og þor.
  • Skapandi starf er ríkjandi í leikskólanum, unnið er með sem fjölbreyttasta efnivið innan sem utandyra.
  • Einnig er áhersla lögð á læsi í víðum skilningi: Að börnin séu læs á umhverfið sitt, að ritmálið sé sýnilegt, lesskilningur er efldur sem og orðaforði og hljóðkerfisvitund.
  • Áhersla er á stærðfræði: Að börnin þekki tölutáknin, stærðfræðihugtökin, formin, stærð, fjölda og að tölutáknin séu sýnileg.

Unnið er markvisst með könnunarleikinn í yngsta árgangi leikskólans.

© 2016 - 2021 Karellen