Aðlögun - þátttökuaðlögun

Þegar barnið byrjar í leikskólanum fer af stað ákveðið aðlögunarferli. Barnið fær smám saman að venjast nýjum aðstæðum, kynnast kennurum og öðrum börnum. Aðferðin sem Garðasel notar ber nafnið þátttökuaðlögun, hún felst í því að allir foreldrar og börn sem eiga að byrja á sömu deild mæta saman í leikskólann. Barnahópnum er skipt upp í tvo hópa og byrja báðir hóparnir aðlögun sama dag, á mismunandi tíma. Aðlögunarferlið tekur eina viku, fyrstu þrjá dagana er foreldri/foreldrar með börnunum eina til tvær klukkustundir í senn. Fjórða og fimmta daginn eru börnin án foreldra hluta úr degi og þá eru báðir barnahópar saman.
Aðlögunin er alltaf einstaklingsbundin, engin aðlögun er eins. Foreldrar sinna sínum börnum, skipta á þeim og gefa þeim að borða og eru til staðar. Kennarar taka að sjálfsögðu líka þátt, skipuleggja daginn, undirbúa leikstundir og svara fyrirspurnum foreldra. Á fjórða degi koma börnin kl. 8:15 um morguninn, kveðja foreldra sína og eru í leikskólanum til kl. 11:30. Fimmta daginn koma börnin kl. 8:15 og eru til kl. 14:00.

Með þessari aðferð er minna álag á börn, foreldra og kennara. Hugmyndafræðin á bak við þetta nýja ferli er að öryggir foreldrar smiti eigin öryggiskennd yfir til barna sinna. Með því að foreldrar séu fullir þátttakendur frá fyrsta degi öðlast þeir öryggi um dagskipulagið og annað sem á sér stað í leikskólanum. Annar kostur er að foreldrar tengjast hver öðrum og milli þeirra skapast oft vinskapur. Í framhaldi af aðlöguninni býður Reykjanesbær foreldrum uppá örfyrirlestra. Þessi fræðsla er liður í framtíðarsýn leikskólanna og sveitafélagsins um áherslur á læsi og stærðfræði og miðast að því að mikilvægt er að foreldrar og leikskóli vinni saman að sem bestum málþroska barnsins.

© 2016 - 2021 Karellen